Háskóli Íslands

Félagar

Fastir kennarar í heimspeki við Háskóla Íslands eru félagar í Heimspekistofnun:

Aðrir félagar í Heimspekistofnun:
 

Elmar Geir Unnsteinsson

Markmið verkefnisins er að þróa nýja kenningu um merkingarfræði tilvísunarliða. Gengið er út frá svonefndri „ætlunarhyggju“ en samkvæmt henni er inntak málgjörðar ákvarðað af „samskiptaætlun“ mælandans. Þá er inntak einkvæmra tilvísunarliða ákvarðað af tilvísunarætlun mælandans. Ætlunarhyggja hefur átt miklu fylgi að fagna og er vel studd af rannsóknum í merkingarfræði og málspeki. Þó hafa fleiri og fleiri fræðimenn fært þau rök gegn ætlunarhyggju að hún geti ekki gert grein fyrir dæmum um ósamkvæmar ætlanir. Rök þessi hafa enn ekki verið tekin það til gagngerrar skoðunar. Því er markmið verkefnisins að færa ítarleg rök fyrir ætlunarhyggju, þar sem téð vandamál eru tekin til greina. Aðferðafræðin felst í því að viða að sér þeim gögnum sem notuð hafa verið af andstæðingum ætlunarhyggju og gagnrýna ýmsar forsendur sem koma í ljós þegar rökin eru athuguð. Þessar forsendur hafa verið samþykktar gagnrýnilaust af býsna mörgum. Við setjum fram aðra nálgun á viðfangsefni merkingafræðinnar, sem leggur áherslu útskýringarhlutverk hennar, en sú nálgun er mun líklegri til árangurs. Á þessum grundvelli má svo setja fram ætlunarbyggða kenningu um tilvísun sem sneiðir alfarið hjá vandanum um ósamkvæmar ætlanir.

Heimasíða: https://elmargeir.net/

Heimasíða verkefnisins: https://confusedintentions.com/

Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum

Megináherslan í rannsóknum Geirs er á þvermenningarlega heimspeki, þá einkum heimspeki sem teflir saman kínverskum og vestrænum hefðum. Þar hefur konfúsíanismi verið einna mest áberandi, jafnt að fornu sem nýju, enda má telja þá stefnu helsta sérsvið Geirs, en jafnframt beinir hann sjónum sínum að öðrum kínverskum heimspekistefnum, t.d. daoisma, móisma og að nokkru leyti búddisma. Hin þvermenningarlega vídd birtist einkum í þeirri viðleitni hans að bera saman og ekki síst samþætta asískar heimspekihefðir og þær vestrænu, einkum forngríska heimspeki og seinni tíma meginlandsheimspeki, til að draga fram og skerpa þá möguleika sem leynast innan viðkomandi hefða en einnig stundar hann rannsóknir á vestrænni heimspeki sem slíkri og hefur t.d. ritað kennslurit á íslensku og ensku um vestræna hugmyndasögu í samvinnu við Ásdísi R. Magnúsdóttur (Hugmyndasaga og tungumál / Language and History of Ideas). Í bók Geirs sem kom út hjá State University of New York Press í janúar 2015, Confucian Propriety and Ritual Learning: A Philosophical Interpretation, er umfjöllunarefnið konfúsíanísk menntaheimspeki en þar leitar hann fanga í heimspeki fjölmargra vestrænna höfunda, þ.á m. Hegel, Weber, Gadamer, Whitehead, Dewey og Bourdieu, til að auðga viðfangsefnið enn frekar og efna til heimspekilegrar samræðu milli ólíkra hefða.

Á næstu misserum hyggst Geir einbeita sér að því að gera kínverska heimspeki aðgengilega íslenskum lesendum og stefnir í því skyni að vinnslu íslenskrar þýðingar á kínverska fornritinu Herstjórnarlist Sunzi sem og rits á íslensku um kínverska heimspeki sem er ætlað að höfða til jafnt leikra sem lærða.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir

Mannskilningur - náttúruskilningur - sjálfsskilningur: Mikilvægi skynjaðrar þekkingar í þverfræðilegu samtali um umhverfismál Í verkefninu, sem staðsett er innan umhverfishugvísinda, vinn ég að heimspekilegum rannsóknum á sambandi manns og náttúru, m.a. eins og það birtist í málefnum sem varða menntun, náttúruvernd og ákvarðanatöku í umhverfismálum. Markmið verkefnisins er að auka fræðilegan og almennan skilning á þeim gildum sem eiga rætur sínar í margvíslegum tengslum manns og náttúru. Ein af grundvallarforsendum þess að auka slíkan skilning felst í að auka veg skynjaðrar þekkingar á tengslum manns og náttúru til jafns við þá röklegu og vísindalegu þekkingu sem hefur hingað til leikið aðalhlutverkið í glímu mannkyns við loftslags- og umhverfisvandann sem blasir við. Þær vísindalegu og vitsmunamiðuðu nálganir sem hafa verið í forgrunni í viðleitni til þess að breyta viðhorfum almennings til umhverfisins þannig að breytinga verði vart í hegðun, duga ekki til þess að auðga og dýpka skilning okkar á náttúrunni og stað okkar innan hennar. Því er brýnt að leita annarra leiða, og þar leika rannsóknir á sviði umhverfishugvísinda og lista, sem varpa ljósi á gildi og hlutverk skynjaðrar þekkingar, lykilhlutverk. Í verkefninu er leitast við að skapa grundvöll til samstarfs á milli rannsakenda og nemenda á sviði umhverfishugvísinda og lista með því markmiði að efla hlut skynjaðrar þekkingar í fræðslu og umræðu um umhverfismál.

Tímabil rannsóknar: 2015 - 2021

Huginn Freyr Þorsteinsson

Rannsóknir Hugins í heimspeki snúast um að skýra tilvísun fræðiheita í vísindum og vísindalega hluthyggju (e. scientific realism). Beinir hann sérstaklega sjónum sínum að fræðiheitum sem vísindasamfélagið hefur gefið upp á bátinn þar sem sérlega erfiðlega hefur reynst að útskýra tilvísun þessara hugtaka. Dæmi um slíkt hugtak er fræðiheitið „ljósvaki“ sem um tíma var notað í eðlisfræði til að skýra hreyfingu ljóss.

Leitast er við að svara þeirri spurningu um hvers konar kenning í merkingarfræði dugar til að skýra þessi hugtök. Reynir Huginn að þróa tvær mögulegar leiðir bæði út frá lýsingakenningu um merkingu og orsakakenningu um merkingu og reynt að bregðast við þekktum vandkvæðum á þessum kenningum við að útskýra fræðiheiti. Þá hefur Huginn einnig rannsakað sérstaklega flógiston kenninguna í efnafræði sem var undanfari súrefniskenningarinnar á 18. öld og hugmyndir Karl Popper og Thomas Kuhn um eðli vísinda.

James Norton 

James Norton is a postdoctoral fellow with the project Understanding Progress, in Science and Beyond at the University of Iceland. He has a PhD from the University of Sydney, and is currently a research affiliate of the University’s interdisciplinary Centre for Time. His research is primarily in metaphysics, with a focus on metaphysical explanation and the philosophy of time. He also works in experimental philosophy, investigating normative concepts, temporal concepts, temporal phenomenology and cross-temporal preferences. He seeks to bring relevant empirical work to the forefront of philosophical investigation, and to generate empirical work where it would be helpful to our theorising yet is unfortunately absent.

More information, and links to publications, can be found at https://jamesnortonphilosophy.weebly.com/.

Um rannsóknarverkefnið: https://understandprogress.wordpress.com/publications/

 

Nanna Hlín Halldórsdóttir

Í nýdoktorsverkefninu Hlustað á þreytu er þessi grundvallarþáttur mannlífsins skoðaður frá heimspekilegu sjónarhorni gagnrýnna fræða og femínískrar fyrirbærafræði. Saga sjúkdómsins síþreytu (ME) sýnir fram á mikilvægi þess að gera grein fyrir ólíkum hliðum þreytu og setja þær fram í skýrum hugtakaramma. Reynsla og upplifanir fólks verða til grundvallar rannsókninni, hvort sem um ræðir reynslu af langvinnri þreytu eða hversdagsþreytu. Greiningin verður af tvennum toga: Í fyrsta lagi felst hún í fyrirbærafræðilegum viðtölum við fólk sem hefur upplifað ólíkar gerðir þreytu. Í öðru lagi felst hún í heimspekilegri greiningu á vinnukerfi samtímans (og sambandi þess við hvíldartíma), það er, í samhengi við þær formgerðir sem gerir fólki (ó)kleift að finna jafnvægi á milli hvíldar og virkni. 

 

Einnig geta stundakennarar, sérfræðingar og styrkþegar stofnunarinnar, doktorsnemar í heimspeki og aðrir kennarar við Háskóla Íslands sem starfa á fræðasviðinu sótt um og fengið aðild að stofnuninni, með samþykki stjórnar, á meðan þeir eru í námi eða starfa við Háskólann.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is