Háskóli Íslands

Líkamleg gagnrýnin hugsun

Verkefnið „Líkamleg gagnrýnin hugsun“ er fólgið í kerfisbundinni, djúptækri og verklegri endurskoðun á gagnrýninni hugsun, bæði sem hugtaki og iðju, með beitingu nýlegra kenninga og rannsókna sem varða líkamleika og reynsluhugsun. Verkefnið gengur út frá þeirri forsendu að í líkamleikanum sé að finna þann týnda þátt sem ríkjandi hugmyndir um gagnrýna hugsun
skortir; eða, með öðrum orðum, að líkamleikinn sé sá veruleiki sem við þurfum að leggja til grundvallar þegar gagnrýnin hugsun er endurskoðuð, bæði á sviði kenninga og þjálfunar. Þetta útheimtir að gangast við víxlverkun líkama og umhverfis sem grunni hugsunarinnar og að taka tillit til margslunginna baklægra aðstæðna sem eru að verki í hugrænu atferli. Að verkefninu stendur hópur fræðimanna sem eru í fararbroddi á alþjóðavísu á sviði rannsókna á líkamlegri hugsun og verklegri tengingu hennar við kennslu gagnrýninnar hugsunar. Í rannsókninni verður lagður kennilegur og aðferðafræðilegur grunnur að kennslu líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar og leiðandi alþjóðlegar rannsóknastofnanir á sviði reynsluhugsunar munu leggja mat á tilraunakennslu þar sem aðferðafræðin sem verkefnið mótar verður prófuð. Leitast verður við að ryðja nýjar brautir á sviði gagnrýninnar hugsunar sem hingað til hefur að mestu leyti verið bundið við rökhugsun eða samfélagsgagnrýni en látið bakgrunn reynslunnar að mestu liggja á milli hluta. Sú tegund kennslu sem hér er í húfi gæti hæglega eflt nemendur á öllum sviðum í gagnrýninni hugsun.

Aðalrannsakendur eru Björn Þorsteinsson, Donata Schoeller og Sigríður Þorgeirsdóttir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is