Háskóli Íslands

Magnús Eiríksson – Gleymdur samtíðarmaður Kierkegaards

Málþing Heimspekistofnunar Háskóla Íslands um Magnús Eiríksson, guðfræðing og trúarheimspeking. Málþingið fer fram í Lögbergi 103 við Háskóla Íslands þann 23. mars kl. 13.30-17.00.

Magnús Eiríksson (1806–1881) var guðfræðingur og trúarheimspekingur sem starfaði í Kaupmannahöfn á dönsku gullöldinni svokölluðu. Hann var samtíðarmaður Søren Kierkegaards og áttu þeir í fræðilegum deilum. Kierkegaard fór inn í heimspekisöguna sem merkasti heimspekingur Norðurlanda en nafn Magnúsar Eiríkssonar hefur að mestu gleymst. Lengst af hafa fálæti og þöggun einkennt afstöðu til hugmynda Magnúsar bæði í Danmörku og hér á landi. Nýlegar rannsóknir á yfirgripsmiklu verki hans sýna hins vegar fram á að hann var framsýnn og nútímalegur hugsuður og brautryðjandi á ýmsa lund. Nýlega voru niðurstöður þessara rannsókna gefnar út á bók sem Gerhard Schreiber og Jon Stewart ritstýrðu, Magnús Eiríksson. A Forgotten Contemporary of Søren Kierkegaard (Museum Tusculanum Press, 2017). Íslenskir fræðimenn sem eiga greinar í bókinni eða hafa rannsakað hugmyndir Magnúsar Eiríkssonar munu kynna niðurstöður sínar á málþinginu.

Dagskrá

  • 13.30-13.40 Inngangur: Sigríður Þorgeirsdóttir
  • 13.40-14.10 Pétur Pétursson: Trú, skynsemi og reynsla – stef í guðfræði Magnúsar Eiríkssonar.
  • 14.10-14.40 Ævar Kjartansson: Trúarskilningur Magnúsar Eiríkssonar.
  • 14.40-15.10 Guðmundur Björn Þorbjörnsson: Er Jesús Guð, og er Jóhannes Jóhannes? Um guðfræðideilur milli Magnúsar Eiríkssonar og kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.
  • 15.10-15.30 Molasopi.
  • 15.30-16.00 Vilhjálmur Árnason og Jón Bragi Pálsson: Andstreymi og afturhald. Viðbrögð við hugmyndum Magnúsar Eiríkssonar á Íslandi.
  • 16-16.30 Sigríður Þorgeirsdóttir: Frelsandi og erótísk heimspeki um konur: Afstaða Magnúsar Eiríkssonar og Søren Kierkegaards til Clöru Raphael eftir Mathilde Fiebiger.
  • 16.30-17.00 Kristian Guttesen: Út úr skugganum. Um Magnús Eiríksson, ógleymdan samtímamann Kierkegaards.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is