Háskóli Íslands

Útgáfa kennara í heimspeki

Auk bóka sem Heimspekistofnun gefur út hafa félagar í stofnuninni gefið út verk sem byggjast á rannsóknum þeirra, ýmist sjálfir eða undir merkjum bókaforlaga, auk þess sem þeir hafa þýtt erlend rit og ritstýrt bókum og greinasöfnum. Hér eru nefnd helstu verk frá síðustu árum og vísað í ritaskrár á heimasíðum þar sem er að finna upplýsingar um greinar í tímaritum og bókum.

Hægt er að nálgast ritaskrár á starfsmannasíðum kennara:

Helstu bækur frá u.þ.b. síðustu 15 árum:

Hugleiðingar við Öskju

Páll Skúlason. Ljósmyndir: Guðmundur Ingólfsson. Texti bókarinnar fjallar um þá einstöku reynslu sem ferðalangurinn verður fyrir í þeirri óræðu og tröllauknu veröld sem Askja er. Páll leggur út af þessari áhrifaríku reynslu og dregur af henni fjölþættar ályktanir um stöðu mannsins í náttúrunni og alheiminum – en einnig í hinum „manngerða“ heimi. Háskólaútgáfan 2005.

Frjálsir andar. Ótímabærar hugleiðingar um sannleika, siðferði og trú

Róbert H. Haraldsson. Bókin er rannsókn á vægi sígildrar heimspeki í samtímanum og geymir hugleiðingar um þekkta heimspekinga og rithöfunda. Háskólaútgáfan 2004.

Sjálfræði og aldraðir í ljósi íslenskra aðstæðna

Vilhjálmur Árnason. Meðhöfundur Ástríður Stefánsdóttir. Rit sem veitir nýja innsýn í veruleika íslenskra öldrunarheimila og vekur brýnar spurningar um það hvernig við getum best stuðlað að virðingu þeirra sem eiga þar heima.
Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan 2004.

Blood & Data. Ethical, Legal and Social Aspects of Human Genetic Databases

Ritstjórar: Garðar Árnason, Salvör Nordal, Vilhjálmur Árnason. Bókin fjallar um álitamál um gagnabanka á heilbrigðissviði frá siðfræðilegu, lagalegu og félagsfræðilegu sjónarhorni og dæmi eru tekin frá mörgum þjóðlöndum.
University of Iceland Press and Centre for Ethics, Reykjavík 2004.

Orðræða um frumspeki, Nýtt kerfi um eðli verundanna og Mónöðufræðin

Gottfried Wilhelm Leibniz. Gunnar Harðarson þýddi. Þýðing á þremur ritum eftir Leibniz, „Orðræðu um frumspeki“, „Nýtt kerfi um eðli verunda“ og „Mónöðufræðin“. Í þessum ritum setur Leibniz fram á hnitmiðaðan hátt hugmyndir sínar um eðli veruleikans, möguleika og nauðsyn, samspil efnis og anda og stöðu Guðs gagnvart sköpunarverkinu.
Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2004.

Siðfræði lífs og dauða. Erfiðar ákvarðanir í heilbrigðisþjónustu

Vilhjálmur Árnason. Fjallað er um öll helstu siðferðileg álitamál í heilbrigðisþjónustu á ítarlegan en aðgengilegan hátt. Rætt er um mál á borð við þagnarskyldu, réttindi sjúklinga, rannsóknir á fólki, fósturgreiningu, fóstureyðingar, líffæraflutninga, líknardráp og réttláta heilbrigðisþjónustu, auk spurningar sem erfðarannsóknir hafa vakið á undanförnum árum.
Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan 2003 (2. útgáfa). 

Hugleiðingar um frumspeki

René Descartes. Þýðing: Þorsteinn Gylfason sem einnig ritar inngang og skýringar. Þetta er eitt höfuðverk vestrænnar heimspeki. Höfundurinn leitast við að færa sönnur á tilveru Guðs og greinarmun sálar og líkama. Þessar röksemdir um tvær af stærstu gátum mannsandans þóttu afar nýstárlegar og mættu sterkri andstöðu og hatrömmum deilum.
Hið íslenska bókmenntafélag 2001.

Kvenna megin. Greinar í femínískri heimspeki

Sigríður Þorgeirsdóttir. Safn greina um femíníska heimspeki, áttunda ritið í ritröðinni Íslenzk heimspeki - Philosophia Islandica. Hér er kynnt til leiks ung grein innan heimspekinnar sem hefur að markmiði að túlka heiminn á forsendum beggja kynja. Femínísk heimspeki sprettur upp úr kvenfrelsishreyfingum 20. aldar og leitast hún við að gera kynjamisrétti sýnilegt í því augnamiði að aflétta því, báðum kynjum til góðs. Hið íslenska bókmenntafélag  2001.

Tveggja manna tal

Róbert H. Haraldsson. Hið íslenska bókmenntafélag 2001.

Frelsið

John Stuart Mill. Þýðing: Jón Hnefill Aðalsteinsson og Þorsteinn Gylfason sem líka ritar forspjall. Frelsið er eitt af örfáum sígildum ritum stjórnspekinnar, og birtist hér öðru sinni í íslenskri þýðingu. Hið íslenska bókmenntafélag 2000.

Frumspekin I

Aristóteles. Þýðing og inngangur: Svavar Hrafn Svavarsson. Frumspekin I er eitt áhrifamesta rit í sögu heimspekinnar. Hér ræðir Aristóteles og metur viðhorf Platons og fyrirrennara sinna til spurninga um eðli og gerð veruleikans og mótar sína eigin kenningu. Með henni er lagður grunnur að umræðu sem sett hefur mark sitt á gervalla vestræna heimspeki allt fram á þennan dag. Hið íslenska bókmenntafélag 1999.

Saga and Philosophy and Other Essays

Páll Skúlason. Inngang ritar Paul Ricoeur. Greinasafn um fjölbreytt viðfangsefni. Háskólaútgáfan 1999

Broddflugur. Siðferðilegar ádeilur og samfélagsgagnrýni

Vilhjálmur Árnason. Safn þrjátíu greina sem fela í sér siðferðilegar ádeilur og samfélagsgagnrýni. Háskólaútgáfan og Rannsóknarstofnun í siðfræði 1997.

Vis Creativa : Kunst und Wahrheit in der Philosophie Nietzches

Sigríður Þorgeirsdóttir. Bókin, sem fjallar um heimspeki Nietzches, er byggð á doktorsritgerð höfundar og kom út árið 1996 hjá Königshausen & Neumann í Würzburg.

Í skjóli heimspekinnar. Erindi og greinar

Páll Skúlason. Háskólaútgáfan 1995

Aðferðir rökfræðinnar

Erlendur Jónsson. Bókin kom út árið 1994.

Frumtök rökfræðinnar

Erlendur Jónsson. Bókin kom út árið 1992.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is