Header Paragraph

Bók um mál, merkingu og hugsun

Image
Talking about

Út er komin bókin Talking about eftir Elmar Geir Unnsteinsson, vísindamann við Heimspekistofnun Háskóla Íslands og dósent við University College Dublin. Útgefandi er Oxford University Press.

Í bókinni setur Elmar Geir fram kenningu um hvað það sé sem ákvarðar tilvísun og merkingu orðanna sem við notum. Hann segir stórmerkilegt hversu vel manneskjan getur tjáð og átt í samskiptum um skoðanir sínar og hugmyndir, „t.d. getum við hugsað um hlut í umhverfinu og bara með því að gefa frá okkur nokkur vel valin hljóð þá getum við látið viðmælanda okkar hugsa strax um nákvæmlega sama hlutinn.“ Kenningunni sem sett er fram í bókinni er ætlað að skýra eðli og uppbyggingu þessarar flóknu getu eða kunnáttu mannsins á grundvelli þess að ætlun mælandans spili lykilhlutverk, frekar en samhengi, merking orða eða túlkun. Elmar segir að margir heimspekingar hafi andmælt kenningum af þessum toga og sagt að þær veki fleiri ráðgátur en þær svari, t.d. um ýmsar tegundir af ruglingi sem hrjáð getur mælandann. „Með því að draga saman ólíka þræði úr hugfræði, málgjörðafræði og tengdum greinum set ég fram nýtt sjónarhorn á tilvísunarkunnáttu mannsins og leysi að sama skapi upp þessar ráðgátur sem ég nefndi. Kenningin varpar einnig nýju ljósi á ýmis önnur áhugverð efni, svo sem dulin viðhorf, eintal, eðli tákna og táknkerfa og mekanískar skýringar á hugrænum hæfileikum.“

Þetta er fyrsta bók Elmars en áður hefur hann birt fjölda greina um frumspekilegar spurningar um mál, merkingu og hugsun innan vébanda ætlunarhyggjunnar. Nýjasta grein hans var birt í 2. hefti Tímarits Máls og menningar 2022, en hún nefnist „Stafsetníng, sögufölsun og þjóðnýting skáldverka“ og fjallar um virðingu fyrir ætlun höfundarins, í þessu tilfelli Halldórs Kiljan Laxness. Elmar hefur einnig rannsakað ýmis praktískari efni, eins og þöggun (e. silencing), hatursorðræðu og lygar eða blekkingar. Elmar er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá City University of New York, Graduate Center, árið 2015, og hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar fyrir störf sín. Hann hlaut styrki frá Fulbright og Thor Thors sjóðunum til framhaldsnáms og verkefnastyrki frá Rannís árið 2016, og árið 2020, til rannsókna í heimspekilegri merkingarfræði.

Nánari upplýsingar um bókina á vef Oxford University Press. Bókin er þegar komin í sölu hjá Bóksölu stúdenta á Háskólatorgi.

Image

 Elmar Geir Unnsteinsson.