Hugsað með
Hugsað með Vilhjálmi
Í tilefni sextugsafmælis Vilhjálms Árnasonar í janúar 2013 var haldin viðamikil ráðstefna honum til heiðurs þar sem bæði erlendir og innlendir samstarfsmenn Vilhjálms fjölluðu um heimspeki hans og hugðarefni. Hér er að finna 13 greinar byggðar á erindum sem haldin voru á ráðstefnunni. Vilhjálmur Árnason hefur kennt heimspeki við Háskóla Íslands frá árinu 1982 og verið afkastamikill kennari og fræðimaður, ekki síst á sviði stjórnmálaheimspeki og siðfræði, og er vel metinn á alþjóðlegum vettvangi fyrir skrif sín um lísiðfræði. Bók hans Siðfræði lífs og dauða, sem kom fyrst út árið 1993, er brautryðjandaverk og hefur verið undirstaða allrar kennslu í heilbrigðis og lífsiðfræði hér á landi. Þá gaf hann út árið 2008 yfirgripsmikið verk um helstu kenningar í siðfræði, Farsælt líf, réttlátt samfélag. Vilhjálmur hefur ætíð tekið virkan þátt í samfélagsumræðu um margvísleg siðferðileg álitaefni og lýðræði, ekki síst í kjölfar bankahrunsins en hann var formaður vinnuhóps um siðferði og starfshætti sem starfaði með rannsóknarnefnd Alþingis. Ritstjórar: Salvör Nordal og Róbert H. Haraldsson.
Hugsað með Platoni
Sagt hefur verið um evrópska heimspeki að hún væri runa af neðanmálsgreinum við Platon. Íslenskir heimspekingar hafa lagt sitt af mörkum til þassara neðanmálsgreina, bæði með glímu sinni við þau viðfangsefni sem Platon gerði heimspekileg og með glímu sinni við Platon sjálfan. Þetta rit hefur að geyma 14 ritgerðir um verk Platons, viðfangsefni og áhrif. Flest frægustu verk hans ber á góma, allt frá Málsvörninni og Ríkinu til Laganna. Fyrsta ritgerðin er sérstök, eftir Grím Thomsen, samin 1897. Hann býður lesendum upp á túlkun sína, byggða á lestri grískra frumtexta, ,eða kjarnyrtu og háfleygu málfari. Aðrir höfundar eru; Svavar Hrafn Svarvarson Björn Þorsteinsson, Eiríkur Smári Sigurðarson, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Eyjólfur Kjalar Emilsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson, Gunnar Harðarson, Henry Alexander Henrysson, Páll Skúlason, Róbert H. Haraldsson, Róbert Jack, Sigríður Þorgeirsdóttir, Svavar Hrafn Svavarsson og Vilhjálmur Árnason. Ritstjóri: Svavar Hrafn Svavarson.
Hugsað með Mill
Þess var víða minnst árið 2006 að tvöhundruð ár voru liðin frá fæðingu heimspekingsins Johns Stuart Mill. Íslenskir heimspekingar minntust afmælisins með málþingum bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í Hugsað með Mill er að finna 10 ritgerðir sem byggðar eru á erindum sem haldin voru á málþingunum. Óhætt er að fullyrða að Mill hafi haft mikil áhrif á íslenska heimspeki og stjórnmálaumræðu hér á landi. Þegar á 19. öld var Mill lesinn af forystumönnum íslensks samfélags og verk hans kynnt íslenskum lesendum. Á síðari árum hafa margir íslenskir heimspekingar fjallað um einstök verk hans eða hugðarefni. Þrjár af merkustu bókum hans, Frelsið, Nytjastefnan og Kúgun kvenna hafa verið þýddar á íslensku og hafa hugmyndir hans verið Íslendingum handgengnar. Í Hugsað með Mill er meðal annars að finna greinar um efni þessara bóka og eru höfundar þau Guðmundur Heiðar Frímannsson, Gunnar Harðarson, Kristján Kristjánsson, Mikael M. Karlsson, Róbert H. Haraldsson, Salvör Nordal, Sigríður Þorgeirsdóttir, Sigurður Kristinsson, Svavar Hrafn Svavarsson og Vilhjálmur Árnason. Ritstjórar: Salvör Nordal, Róbert H. Haraldsson og Vilhjálmur Árnason
Hugsað með Páli
Hugsað með Páli hefur að geyma 16 ritgerðir sem fjalla með einum eða öðrum hætti um heimspeki Páls Skúlasonar og hugðarefni. Hér má finna greinar um siðfræði, gagnrýna hugsun, stjórnmál, náttúru, tákn, hamingju og kristna trú. Bókin er afrakstur Pálsstefnu, málþings sam haldið var til heiðurs Páli sextugum í Hátíðasal Háskóla Íslands 8. og 9. apríl 2005. Páll Skúlason hefur kennt við heimspekiskor frá því henni var komið á fót árið 1971 og er því einn þeirra sem hefur mótað skorina frá upphafi og verið þar mikils metinn kennari. Hann var skipaður prófessor árið 1975 og hafði upp frá því umsjón með kennslu í heimspekilegum forspjallsvísindum. Páll er afkastamikill fræðimaður og um það vitnar fjöldi útgefinna rita um fjölbreytt heimspekileg viðfangsefni. Páll var kjörinn rektor Háskóla Íslands árið 1997 og gengdi því starfi í átta ár. Ritstjórar: Rórbert H. Haraldsson og Vilhjálmur Árnason.
Hugsað með Aristótelesi
Aristóteles er án efa einn áhrifamesti heimspekingur sögunnar. Hann er frægasti nemandi Platons, kennari Alexanders mikla, einn af höfundum heimsmyndarinnar sem hin nýju vísindi og upplýsingin sneru niður. Einnig er hann höfundur dyggðasiðfræðinnar sem hefur haft mikil áhrif á siðfræðikenningar frá miðri 20. öld og fram á okkar daga. Hann er líka þekktur fyrir kenningar um að sumar manneskjur séu fæddir þrælar, að börn geti ekki verið hamingjusöm og að konur séu í eðli sínu vanskapaðir karlar. Í þessu riti eru átta nýjar greinar um heimspeki Aristótelesar sem eiga uppruna sinn á málþingi sem haldið var í tilefni af 2400 ára fæðingarafmælis hans. Greinarnar fjalla um fjölbreytta þætti í frumspeki, siðfræði og skáldskaparlist Aristótelesar. Að auki er í bókinni birt ritgerð eftir Grím Thomsen um Aristóteles, en fyrri hluti ritgerðarinnar hefur þegar verið birtur í bókinni Hugsað með Platoni. Ritstjórar: Eiríkur Smári Sigurðarson og Svavar Hrafn Svavarsson.