Header Paragraph

Fjölmennur sumarskóli í líkamlegri gagnrýninni hugsun

Image

Erasmus+ sumarskólinn TECTU (Training Embodied Critical Thinking and Understanding) var haldinn í Öskju nýverið. Sumarskólinn er haldinn í einum sex samstarfsskóla hvert sumar en þetta er í fjórða skiptið sem hann er haldinn. 

TECTU sumarskólinn er þverfaglegt þjálfunarprógram í aðferðum líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar og skilnings og yfirskrift skólans í ár er ,,Hugsað á tímum fjölkreppu". Nemendur skólans í ár eru um 35 talsins og koma hvaðanæva að úr heiminum. Þeir sátu í vikunni vinnustofur í örfyrirbærafræðilegum viðtalsaðferðum, í hugleiðsluaðferðum sem leið til að skynja mannlega reynslu og í aðferðinni Hugsað á brúninni (Thinking at the Edge) sem á rætur að rekja til heimspekingsins Eugene Gendlin. Einnig voru aðferðirnar prófaðar í dagsferð um eldfjallalandslag Nesjavalla. Í kjölfar sumarskólans vinna nemendur lokaverkefni út frá sínu sérsviði með aðferðir líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar að leiðarljósi. 

Ábyrgðarmaður verkefnisins er Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands en hún, Guðbjörg R. Jóhannesdóttir dósent við Listaháskóla Íslands og Donata Schoeller, gestaprófessor í heimspeki, leiða verkefnið fyrir hönd HÍ. Sólrún Una Þorláksdóttir tók nýlega við stjórn verkefnisins af Elsu Haraldsdóttur.

Nýlega kom út bók um kenningar og aðferðarfræði líkamlegrar gagnrýninnar hugsunar í rannsóknum og námi. Bókin sem kemur út hjá Routledge er í opnum aðgangi.

Image