Header Paragraph

Flokkun í vísindum – pragmatismi eða bjarghyggja?

Image

Föstudaginn 8. apríl flytur Ave Mets, vísindaheimspekingur við Háskólann í Tartu, fyrirlestur sem ber heitið: Flokkun í vísindum – pragmatismi eða bjarghyggja? Dæmi af lotukerfinu.

Lotukerfið með frumefnunum er oft álitið hið fullkomna dæmi um flokkun í vísindum, þar sem öll mikilvægustu skilyrði flokkunar koma við sögu eins og fræðilegur grunnur, hlutlægni, einfaldleiki og forspárgildi og ekkert vantar upp á. Þannig virðist lotukerfið fela í sér grundvallareinkenni og grundvallarflokkunarþætti frumefnanna. En ef við lítum svo á að þættirnir sem þarna liggja til grundvallar séu aðeins hluti af þeim óendanlega mörgu eiginleikum sem frumefnin hafa og að finna megi aðra mögulega þætti til að leggja til grundvallar flokkunar á frumefnum þá hlýtur að vera mögulegt að fá út annars konar kerfi. Í þessum fyrirlestri er fjallað um það sem kalla má fyrirmyndarflokkun í hinu hefðbundna lotukerfi sem og mögulegum lotukerfum í því skyni að kanna réttmæti pragmatískrar nálgunar eða fjölhyggjunálgunar.

Ave Mets er rannsóknarsérfræðingur í vísindaheimspeki við Háskólann í Tartu í Eistlandi. Hún fæst við rannsóknir á sögu og framkvæmd vísindaheimspeki og vísindalegrar heimsmyndar, meðal annars innan heimspeki tækninnar, heimspeki efnafræðinnar og heimspeki náttúrunnar.             

Fyrirlesturinn er á vegum Heimspekistofnunar og verður haldinn í stofu Ág-101 í Árnagarði , föstudaginn 8. apríl kl. 12–13. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku og er öllum opinn.

Image