Header Paragraph

Hvað merkir það að vera skapandi í hugvísindum?

Image

Miðvikudaginn 25. maí kl. 15–16 flytur Maxime Rovere fyrirlestur á vegum Heimspekistofnunar í stofu 101 í Lögbergi. Fyrirlesturinn ber heitið: „Hvað merkir það að vera skapandi í hugvísindum?“ og verður fluttur á ensku.

Hinn hnattvæddi akademíski heimur hugvísindanna er þekktur fyrir strangar kröfur og einstrengingslega framsetningu. Eftir því sem rannsóknir í heimspeki, bókmenntum og sagnfræði verða sérhæfðari verða þær jafnframt staðlaðri: ritrýndar greinar hafa tilhneigingu til að líta allar eins út og útgefendur eru stundum tregir til að samþykkja nýjungar. Samt sem áður er það ekki aðeins mögulegt að halda áfram að vera skapandi í hugvísindum heldur er það afar brýnt til þess að þau lifi af. Hvers vegna og hvernig?

Maxime Rovere er heimspekingur og fræðimaður við IHRIM (Institut d'Histoire des Représentations et des Idées dans les Modernités) við École normale supérieure háskólann í Lyon í Frakklandi. Hann er sérfræðingur í heimspeki Spinoza og stundar rannsóknir á heimspeki 17. aldar, en einnig á rómverskum skólum fyrstu aldarinnar. Jafnframt vinnur hann að þróun „gagnvirkrar siðfræði“ á mörkum ýmissa samtímastrauma (flækjufræði, stýrifræði og hliðarsamkvæmni).

Öll velkomin og aðgangur ókeypis.

Image