Header Paragraph

Intelligent Instruments hlýtur tvenn evrópsk verðlaun

Image

Tilkynnt hefur verið að verkefnið Intelligent Instruments hljóti tvenn verðlaun sem bæði verða veitt á Ars Electronica hátíðinni í Linz í september.

Önnur verðlaunin, Citizen Science Award, veitir Evrópusambandið rannsóknarverkefnum fyrir samfélagsleg og stjórnmálaleg áhrif til aukinnar þróunar í átt að fjölmenningarlegu og sjálfbæru samfélagi í Evrópu án aðgreiningar. Í niðurstöðu valnefndar verðlaunanna segir að Intelligent Instruments nýti tónlist til að rannsaka áhrif gervigreindar á sköpun og samfélag, það veki upp mikilvægar spurningar um afleiðingar gervigreindar í tengslum við siðfræði, tækniþróun og aðgengi að tækni. Í verkefninu sé unnið á þverfaglegan hátt þar sem innsýn tæknigreina og hugvísinda renna saman. Þá hafi aðstandendum verkefnisins tekist að virkja almenning í opnum vinnustofum og viðburðum á framúrskarandi hátt. Með þessu móti hafi tekist að hvetja til samtals og hafa áhrif á stefnumótun. Þannig hafi skapandi aðferðir verkefnisins auðgað evrópskt rannsóknasamfélag. Sjá nánar hér.

Hin verðlaunin sem rannsóknarverkefnið hlýtur eru Prix Ars Electronica verðlaun í riðlinum Gervigreind í listum. Prix Ars Electronica eru ein helstu og elstu alþjóðlegu verðlaunin í nýmiðlalistum (e. media arts) og er ætlað að hvetja til samspils lista, tækni og samfélags. Sjá nánar hér.

Verkefnið Intelligent Instruments hefur verið starfrækt við Hugvísindasvið Háskóla Íslands frá því í byrjun árs og nýtur veglegs styrks hjá Evrópska rannsóknarráðinu (ERC Consolidator Grant 2021-2026). Í verkefninu er rýnt í hlutverk gervigreindar í sköpun og þá sérstaklega í gegnum hljóðfæri í lifandi flutningi. Framlag verkefnisins er á sviði tölvutækni og hug- og félagsvísinda en það gengur út á að rannsaka hvernig fólk bregst við greind og atbeina í tækni almennt, þar sem tónlist og hljóðfæri eru notuð sem vettvangur og aðferðafræði rannsóknarinnar. 

Image