Rýnir í samband lyga og dulinna skoðana
Upplýsingaóreiða, falsfréttir, óheiðarleiki, lygi. Allt eru þetta orð sem flest okkar hafa rekist á á undanförnum árum, ekki síst tengslum við pólitíska umræðu en einnig COVID-19-faraldurinn á víðáttum netsins. Fullyrt er að kosningar hafi unnist fyrir tilstilli upplýsingaóreiðu, hálfsannleiks og falsfrétta og stjórnvöld víða um heim, þar á meðal hér á landi, hafa sett á fót nefndir eða jafnvel stofnarnir til þess að takast á við þessa vá sem fylgir m.a. hinu óhefta og óþrjótandi upplýsingastreymi á netinu.
Þessi nýi veruleiki kemur töluvert við sögu í rannsóknarverkefni sem Elmar Geir Unnsteinsson, vísindamaður við Háskóla Íslands og dósent við University College Dublin, fæst við ásamt stórum hópi innlends og erlends samstarfsfólks. Verkefnið nefnist „Insincerity for Fragmented Minds“ (InFraMinds) eða „Óheilindi og brotakenndur mannshugur“ á hinu ástkæra ylhýra.
„Í sem stystu máli má segja að rannsóknin snúist um sambandið á milli lyga og dulinna skoðana. Við teljum yfirleitt að lygi felist í því að segja eitthvað án þess að trúa því. En rannsóknir benda til þess að skoðanir fólks séu asni oft duldar þannig að ég gæti vel trúað einhverju án þess þó að átta mig á því,“ segir Elmar.
Hann nefnir dulda fordóma sem dæmi. „Þetta flækir strax hugmyndir okkar um lygar og óheiðarleika í máli. Ef ég veit ekki að ég hef fordóma í garð kvenna, er ég þá að ljúga þegar ég segist ekki hafa þá? Margir vilja svara neitandi og halda því fram að lygi felist í misræmi á milli þess sem er sagt og meðvitaðra skoðana. Í þessu rannsóknarverkefni færi ég rök fyrir hinu gagnstæða,“ bætir Elmar við.
Hann tiltekur tvær ástæður. „Í fyrsta lagi hlýtur að vera hægt að ljúga að sjálfum sér - sem er stundum kallað sjálfsblekking. Ef það er rétt hlýtur sum lygi að byggja á ómeðvituðum skoðunum því að sjálfsblekking virðist ekki geta virkað nema skoðunin sé að einhverju leyti dulin. Í öðru lagi benda rannsóknir til þess að við teljum okkur stundum trú um eitthvað til þess að okkur gangi betur að ljúga því að öðrum. Ef ég vil að allir haldi að ég sé gáfaður er gott að byrja á því að trúa því sjálfur, svo mér líði ekki eins og ég sé að ljúga þegar ég segi öðrum það. Meðvituð lygi eykur líkur á hugrænni ofreynslu, sem hefur ýmis ytri kennimerki (lengri pásur, augum blikkað sjaldnar), og lygari getur mögulega losað sig við þessi kennimerki með því að beita sjálfsblekkingu.“