Styrkur til rannsóknar á samskiptaerfiðleikum
Gústav Adolf B Sigurbjörnsson, doktorsnemi í heimspeki við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, hefur hlotið viðurkenningu úr Heimspekisjóði Brynjólfs Bjarnasonar. Þetta er í annað skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur styrkurinn 200.000 þúsund krónum.
Doktorsverkefni Gústavs ber heitið „Worlds beyond mine – A phenomenological analysis of the epistemology of empathy and communication“. Í verkefninu beinir hann sjónum sínum að eðli samskiptaerfiðleika, sérstaklega þeim sem eiga sér stað milli ólíkra samfélaghópa og því óréttlæti sem af slíku getur hlotist þegar valdastaða þeirra er ójöfn. Verkefninu er ætlað að tengja saman tvö svið heimspekinnar sem ekki hafa verið í nánu samtali áður, annars vegar fyrirbærafræði og hins vegar félagsþekkingarfræði. Hér metur hann svokallað þekkingarfræðilegt óréttlæti (e. epistemic injustice) í ljósi hugmynda fyrirbærafræðinnar um lífheiminn (þ. Lebenswelt) auk þess að horfa til fyrirbærafræðingsins Maurice Merleau-Ponty og greiningar hans á tengslum tjáningar, tungumáls og samkenndar. Þetta tengir Gústav sérstaklega þeirri umræðu sem spratt upp af #MeToo-baráttunni og annarri baráttu jaðarhópa sem gera þurfa grein fyrir upplifun sem sjálf er jaðarsett.
Gústav er með BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og MA-gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla með sérhæfingu í fyrirbærafræði og heimspeki hugans. Hann hefur stundað doktorsnám í heimspeki við Háskóla Íslands undir leiðsögn Björns Þorsteinssonar prófessors frá haustinu 2016.