Varði doktorsritgerð um eðli snertingar og sjálfshrifa
Steinunn Hreinsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í heimspeki, The invisible world between us: Touch and self-affection in the philosophy of Luce Irigaray, við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Mary C. Rawlinson, prófessors emeritu við Stony Brook University í New York. Einnig voru í doktorsnefnd Björn Þorsteinsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Donata Schoeller, gestaprófessor við Háskóla Íslands.
Andmælendur við vörnina voru Phyllis Kaminski, prófessor emerita við St. Mary's College í Indiana í Bandaríkjunum, og Rachel Jones, dósent við George Mason University í Virginíu í Bandaríkjunum. Sverrir Jakobsson, forseti Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 7. febrúar.
Um rannsóknina
Í doktorsritgerð þessari og í ljósi fyrirbærafræði líkamans er tekist á við eðli snertingar, eðli sjálfshrifa og hins undirskilda í myndun merkingar eins og hún birtist í heimspeki Luce Irigaray. Viðfangsefnið tengist kynjamismun, líkamleika og gerandavirkni, sem eru í senn forhugtakanleg og gagnverkandi, en stöðug víxlverkun okkar við heiminn leiðir af sér hinn þekkingarbæra heim. Tengsl kynjamismunar og skynhrifa eiga sér stað í hinu ósýnilega rými á milli okkar og gefa kost á hreyfingu handanverunnar og leiða af sér vitsmunalega og siðferðilega verðleika grundvallaða á eðlislægri þrá mannsins til að tengjast mismuninum í láréttum samveruleika. Þungamiðja ritgerðarinnar er millibilið, staður tengsla okkar og jafnframt afl umbreytinga sem miðar að því að yfirstíga skautun vestrænnar menningar eins og hún birtist í tvíhyggjupörun sjálfsveru og viðfangs, líkama og hugar, náttúru og menningar sem og hefðbundna tvíhyggju kyngervis. Í ljósi fyrirbærafræði millirýmisins eru tengsl okkar við tímann skoðuð og sjónum beint að því hvernig tími líkamsvitundar og skynhrifa fara á undan sjálfsveruleika og hugtökum. Með því að hverfa til skynhrifa er unnt að hrekja hugmyndir um hinn sjálfskapaða einstakling og hið hlutlæga og endurheimta fortíðina í átt að viðurkenningu mismunar og sköpun framtíðar.
Um doktorinn
Steinunn Hreinsdóttir er með BA-próf í dönsku frá Háskóla Íslands, Cand.Phil-próf í dönsku frá Kaupmannahafnarháskóla og MA-próf í norrænum bókmenntum frá sama skóla með sérhæfingu í leikritum Strindbergs. Þá er Steinunn með diplómapróf í starfstengdri siðfræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í heimspeki með sérþekkingu í viljafrumspeki og heimspeki mismunarins.
